Fræðsla

Lánamál

Í upphafi þarf kaupandi að huga að lánamöguleikum þeim sem í boði eru hjá bönkum, Íbúðalánasjóði, lífeyrissjóðum eða öðrum lánastofnunum. Á þessu stigi er oft hægt að fá góð ráð hjá fasteignasölum. Miklar breytingar hafa orðið á lánamálum til fasteignakaupa eftir að bankarnir komu fyrir alvöru á lánamarkaðinn á árinu 2004. Nokkuð mismunandi er hvaða gögn lánastofnanir óska eftir áður ákvörðun er tekin um lánveitingu. Þurfa kaupendur að kanna það í hverju tilviki en þar er nokkur munur á. Mikilvægt er að kaupendur hugi vel að því hvaða vextir bjóðast á markaðnum og einnig er mikilvægt að huga að því hver tímalengd lánsins sé. Mikill munur er á því hver heildarendurgreiðsla láns verður eftir tímalengd lánsins. Sem dæmi um það má nefna lán hjá lánastofnunum sem er tekið annars vegar til 25 ára og hins vegar til 40 ára en þar getur munað í dag allt að 60% á því sem greitt hefur verið meira í lokin af 40 ára láni. Vaxtakostnaður verður þ.a.l. mun meiri eftir því sem lánið er lengra. Það er því brýnt að kaupendur hugi vel að því m.a. að tímalengd lána skiptir miklu og ráðfæri sig vandlega við fasteignasala sinn eða lánastofnun þegar hugað er lánamálum.